Íslenska orkufyrirtækið Enex ætlar að rannsaka jarðhitasvæði í Búlgaríu og leita eftir samstarfi við búlgarska fjárfesta um vinnslu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta kom fram á íslensk-búlgarskri viðskiptaráðstefnu sem hófst í Sófíu á mánudag, en að henni standa Útflutningsráð og Alþjóðaviðskiptasamband Búlgaríu.

Enex stundar rannsóknir á jarðhitasvæðum í fjölmörgum löndum og hefur hafið boranir á Asoreyjum, Englandi, Írlandi og í Færeyjum. Eigendur fyrirtækisins eru Hitaveita Suðurnesja, Jarðboranir, Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóður, Orkuveita Reykjavíkur, Orkustofnun, Norðurorka og Virkir.

Á annan tug íslenskra fyrirtækja og um 40 búlgörsk fyrirtæki taka þátt í
ráðstefnunni í Sófíu. Flestir íslensku þátttakendanna eru frá hugbúnaðar-,
tækni-, lyfja- og fjármálafyrirtækjum. Í frétt frá búlgörsku fréttastofunni
Sófíu kemur fram að á ráðstefnunni hafi Íslendingar sýnt áhuga á að
fjárfesta í búlgarskri ferðaþjónustu og að taka þátt í byggingastarfsemi á
sviði iðnaðar- og verslunarhúsnæðis.