Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir rekstur bankans ganga nokkuð vel, þó það megi alltaf ganga betur. „Við teljum að sumpart hafi ekki verið eins gefið milli bankanna þegar þeir voru stofnaðir. Okkur finnst sem meira af flóknum og  viðkvæmum málum hafi verið sett inn í Arion banka en hina bankana þar sem slík mál voru frekar skilin eftir í skilanefndunum.

Okkur hefur þó gengið ágætlega að vinna úr úrlausnarmálum okkar. Við erum með tæplega þúsund fyrirtæki í viðskiptum hjá okkur sem þurfa úrlausn sinna mála. Þar af eru 840 komin í úrlausnarferli og um 640 komin með lausn á sínum málum. Í byrjun var eðlilega lögð mest áhersla á stærstu fyrirtækin. Þau skipta mestu máli fyrir efnahag bankans. Í dag erum við búin að afgreiða flest þeirra.“

Endurspeglar raunveruleikann

Að sögn Höskuldar leiðir það til þess að sá efnahagsreikningur sem lagður var fram fyrr í þessum mánuði er farinn að endurspegla vel raunveruleikann. „Við höfum miklu betri tilfinningu fyrir þessum reikningi en við höfðum fyrir þeim sem lá fyrir í fyrra. Í dag erum við að horfa mjög stíft til framtíðar með skýra sýn og erum ekki að fara inn í enn eitt árið með mengaðan efnahagsreikning. Árið 2009 einkenndist af  lífsbaráttu og alls óvíst var að bankanum myndi takast að lifa af. Í fyrra var eignarhaldið orðið skýrt, ný stjórn kom að bankanum, nýr bankastjóri og nýir stjórnendur voru ráðnir og í fyrrahaust var ný framtíðarstefna mótuð. Niðurstaðan er sú að þetta er orðinn alhliða banki sem leggur áherslu á að þjónusta stærri  fyrirtæki og einstaklinga sem þurfa á fjölbreyttri bankaþjónustu að halda.

Ég tel það mikilvægt fyrir Arion banka og kerfið í heild að við náum að ljúka afgreiðslu þeirra úrlausnarmála sem standa út af á þessu ári. Ég gerið ráð fyrir því að á næsta ári verðum við með straumlínulagaðan og samkeppnishæfan banka sem er að sinna venjulegri bankastarfsemi. Hann er ekki að gera það í nægum mæli í dag.“

Ítarlegt viðtal er við Höskuld í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast það undir liðnum tölublöð hér að ofan.