Miðað við starfsáætlun þingsins þá verður því slitið þriðjudaginn 31. maí næstkomandi, sem þýðir að 16 þingfundir eru eftir þessu 145. löggjafarþingi. Það er stuttur tími því um 260 lagafrumvörp og þingsályktunartillögur bíða afgreiðslu, þar af 51 stjórnarfrumvarp.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að engin ákvörðun liggi fyrir um sumarþing.

„Þar sem það verða kosningar í haust þá tel ég einsýnt að við þurfum að funda í júní og kannski eitthvað í ágúst," segir hún. „Það hefur verið hugmynd um að funda kannski til 10. júní en við getum ekki haft þingið lengra því það eru forsetakosningar 25. júní. Síðan hefur einnig verið rætt um að funda eitthvað í upp úr miðjum ágúst. Það hefur samt ekkert verið ákveðið. Þetta ræðst af því hvaða dag verður gengið til kosninga og samkomulagi þingmanna um þingstörfin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .