Ekki verða lagðar fram ákærur vegna meintra brota stjórnarmanna Finnair. Finnair tilkynnti að slík mál væru til rannsóknar þann 3. mars síðastliðinn. Málið varðar 180 þúsund evra bónusgreiðslur til forstjóra Finnair og fasteignaviðskipti sem forstjórinn, Mika Vehviläinen, átti að hafa átt aðild að ásamt einum af stærstu hluthöfum félagsins.

Finnsk yfirvöld kröfðust þess að 6 af 8 stjórnarmönnum Finnair segðu af sér vegna málsins en í þeim hópi var Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Icelandair og nú stjórnarformaður Icelandair Group.

Í tilkynningu sem stjórn Finnair birti í dag kemur fram að rannsókn málsins sé nú lokið af hálfu finnskra yfirvalda og sé niðurstaðan sú að ekki verði lagðar fram kærur. Stjórnin lýsir jafnframt yfir fullu trausti á forstjóra fyrirtækisins, Mika Vehviläinen.