Verkfræðistofan Mannvit réð á dögunum 70 starfsmenn til liðs við sig og þar af eru um 25 fastráðningar. Ráðningar af þessari stærðargráðu stinga óneitanlega í stúf við fréttaflutning af kröppum samdrætti í byggingargeiranum, en að sögn Eyjólfs Árna Rafnssonar, framkvæmdastjóra félagsins, hefur stofan lítið verið viðriðin hinn almenna íbúðamarkað um langan tíma.

„Fyrir allmörgum árum tókum við þá ákvörðun að halda okkur frá íbúðamarkaðnum sem í ljósi aðstæðna í dag var góð ákvörðun enda hefur þessi heiftarlegi samdráttur þar lítið komið niður á verkefnastöðu okkar. Starfsemi okkar er fjölbreytt og við vinnum að margs konar verkefnum sem tengjast samgöngum, umhverfismálum og annarri þjónustu sem enn halda fullum dampi þótt kreppi að í fjármálageiranum.

Við erum einnig í mörgum stórum verkefnum við áframhaldandi uppbyggingu á orkuframleiðslu, einkum jarðhitaorku og notkun orkunnar, bæði í áliðnaði og öðrum verkefnum eins og netþjónabúi. Hvað varðar byggingageirann, höfum við einbeitt okkur að opinberum byggingum og skrifstofu- og atvinnuhúsnæði, en þegar við horfum fram á veginn sjáum við að næsta haust mun væntanlega einnig hægja á þeim markaði, án þess þó að um einhvers konar nauðhemlun verði að ræða,“ segir Eyjólfur Árni.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .