Ekki fæst niðurstaða í Icesave málið sem nú er rekið fyrir EFTA dómstólnum fyrir jól eins og búist var við.

Þetta staðfestir EFTA í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins í dag. Sem kunnugt er fór fram málflutningur í málinu um miðjan september sl. og þá var búist við því að niðurstöðu væri að vænta innan 2-3 mánaða. Icesave málið má rekja til stefnu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á hendur íslenska ríkinu þar sem íslenska ríkið er sakað um að hafa mismunað innstæðueigendum eftir þjóðerni og búsetu.

Viðskiptablaðið lagði inn fyrirspurn hjá EFTA þar sem spurt var hvort niðurstöðu væri að vænta fyrir jól. Í svari EFTA kemur fram að EFTA dómstólinn tilkynni samkvæmt venju um að niðurstöðu sé að vænta í dómsmálum með nokkurra daga fyrirvara. Það hefur ekki verið tilkynnt enn og þar sem dagurinn er síðasti virki dagur fyrir jól er augljóst að engin niðurstaða verður í málinu fyrir jól. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má heldur ekki ráð fyrir niðurstöðu fyrir áramót.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)