Engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsástandsins hér á landi.

Þetta sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra við fjölmiðla en fundi ríkisstjórnarinnar lauk rétt í þessu í Ráðherrabústaðnum. Geir sagði að enn sé verið að fara yfir stöðu mála.

Geir sagði að ekki væri þörf á sérstökum „pakka með aðgerðum," eins og hann orðaði það og sagði að minni spenna ríkti nú en fyrir helgi. Aðspurður um lán frá norrænum seðlabönkum sagði Geir að ekkert slíkt lægi fyrir.

Hann sagði þó að samkomulag hefði náðst um að bankarnir myndu minnka umsvif sín erlendis með því að losa eignir. Hann sagði að gott samstarf hefði verið við viðskiptabankana um helgina en vildi ekki segja nánar til um hvað samkomulagið fæli nákvæmlega í sér.