Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og fyrrum heilbrigðisráðherra, vill ekki að áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar verði afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd og sent til annarrar umræðu á þinginu og í framhaldinu til atkvæðagreiðslu. Guðbjartur á sæti í nefndinni. Tekur hann þar með í sama streng og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fulltrúi VG í nefndinni, sem mun beita sér gegn því að það verði tekið til atkvæða í þingsal, samkvæmt frétt Vísis.

„Við hjálpum því ekki út úr nefndinni, nefndin þarf meirihluta til að fá þetta út. Það stendur þá upp á meirihlutann [á Alþingi, innsk. blm.] ef hann ætlar að gera það með einhverjum öðrum brögðum," segir Guðbjartur.

Gróði hafður að leiðarljósi

Guðbjartur kveðst alfarið á móti því að frumvarpið verði að lögum. „Það stangast á við öll mín prinsipp um vandaða málsmeðferð og svo fer það undir fölsku flaggi. Þetta er bara viðskiptamál. Þetta er réttur til þess að fá að koma þessu inn í verslanir til þess að græða á því. Það stendur allt í frumvarpinu, og ég sé enga þörf fyrir það sjálfur hafandi verið ráðherra lýðheilsustefnu, að fara á móti þeim sem hafa þar reynslu," bætir hann við.

Unnendur frelsis í þversögn við sjálfa sig

„Þetta mál er engan veginn tilbúið og þetta er mál sem að bannar ríkisrekstur. Það er nefninlega það að þegar menn eru að tala um aukið frelsi þá er það gert þegar er verið að banna ríkisrekstur," segir Guðbjartur, en varla sé hægt að tala um aukið frelsi þegar lagt sé til bann á aðkomu ríkisins að smásölunni á sama tíma.

„Þetta byggir eingöngu á viðskiptalegum forsendum, engu öðru. Mín afstaða hefur verið skýr frá upphafi, ég tel þetta fullkomlega óþarft mál sem bætir engu við, og úrelt mál af því að það eru allar þjóðirnar í kringum okkur að leita ráða til að takmarka aðgengi að áfengi, minnka möguleikana, leita að leiðum til að minnka neyslu. Þá ætlum við að hlaupa í hina áttina. Bíðum bara aðeins hver þróunin verður í kringum okkur og hver lýðheilsustefna ríkisstjórnarinnar verður. Það er forgangsatriði í heilbrigðismálum að bæta lýðheilsu og þetta er í andstöðu við alla þá postula sem þar fara fram, þá er ég að tala um Landlækni og fleiri," segir Guðbjartur.

Algengt að svæfa mál í nefndum

Væri ekki farsælla, eða hin lýðræðislega niðurstaða að senda málið til atkvæðagreiðslu og leiða það til lykta með henni?

Jú það getur verið að á einhverju augnabliki muni ég gera það. En það er mjög algengt að mál sofni í nefndum, það er að segja ljúki bara í nefnd ef það er ekki sátt um að fara með málið áfram," segir Guðbjartur.

Hann segir flutningsmenn frumvarpsins bera ábyrgð á því ef málið er ekki nógu gott til að komast út úr nefndinni. Meirihluti nefndarinnar verði ekki gerður ábyrgur fyrir því að málið verði stöðvað „Nei, það er alls ekkert á okkar forræði. Það er á forræði þess sem flytja málið og halda á því í nefndinni. Við náttúrulega erum bara með okkar afstöðu. Það er þeirra að tryggja að það sé meirihluti fyrir málinu. Ég fer ekki að styðja málið til að koma því bara áfram, bara þess vegna," segir Guðbjartur. Hann bendir á að alvanalegt sé að mál séu aldrei tekin á dagskrá þingsins.

Ef ég skil málið rétt, þá ákveður meirihluti nefndarinnar núna hvort málið fari í atkvæðagreiðslu?

„Það þarf meirihluta til að taka málið úr nefndinni."

Þannig að ef meirihlutinn er ekki til staðar, þá fer málið ekki til atkvæðagreiðslu?

„Nei, að sjálfsögðu ekki."