Félag atvinnurekenda hefur sent Degi B. Eggertssyni borgarstjóra erindi og lýst áhyggjum sínum af því að engin úrræði virðist í boði fyrir atvinnufyrirtæki sem þurfa að víkja af lóðum sínum vegna þess að verið er að breyta grónum atvinnuhverfum í borginni í blandaða íbúða- og atvinnubyggð.

Tekið er dæmi af fyrirtæki sem þarf að víkja úr Vogabyggð vegna breytts skipulags, en rekur sig alls staðar á veggi þegar leitað er eftir nýrri lóð sem hentar. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra verður erindið tekið fyrir á fundi borgarráðs á morgun, fimmtudag.

Í bréfinu, sem sent var 8. apríl síðastliðinn, segir að til FA hafi leitað félagsmenn sem margir hverjir veiti forstöðu grónum atvinnufyrirtækjum og hafi áhyggjur af framtíðinni vegna breytinga í skipulagi. „Stefnan um þéttingu byggðar er skynsamleg og stuðlar að öflugra, hagkvæmara og lífvænlegra borgarsamfélagi. Hún hefur þó af hálfu borgaryfirvalda fyrst og fremst verið sett fram á forsendum þróunar íbúabyggðar. Þarfir og hagsmunir atvinnulífsins hafa ekki verið í forgrunni,“ segir í bréfi FA.