*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 2. júlí 2020 07:15

Enginn flúraði gamla merkið á sig

Ný merki Knattspyrnusambandsins voru marga mánuði í pípunum og vinna við þau hefur nú þegar borgað sig að sögn markaðsstjóra sambandsins.

Jóhann Óli Eiðsson
Stefán Sveinn segir að það hafi verið ákveðið kjaftshögg þegar Puma frumsýndi óvart nýtt landsliðsmerki.
Eyþór Árnason

Ný merki Knattspyrnusambandsins (KSÍ) voru marga mánuði í pípunum og vinna við þau hefur nú þegar borgað sig. Merkin hafi verið nauðsynleg enda hafi eldra merkið hamlað öllu markaðsstarfi KSÍ að sögn Stefáns Sveins Gunnarssonar, markaðsstjóra sambandsins.

Í gær afhjúpaði KSÍ nýtt landsliðsmerki en þar er á ferð afrakstur vinnu sem staðið hefur í á annað ár. Fyrr á árinu kynnti KSÍ nýtt merki sambandsins en nú verða í fyrsta sinn eitt merki fyrir landsliðin og annað fyrir sambandið sjálft.

„Við sáum strax 2018 að vörumerki KSÍ var ekki á sama stað og landsliðin okkar. Besti mælikvarðinn á þau er að aldrei hefur nokkur fengið sér húðflúr með gamla KSÍ merkinu, svo ég viti til, en í bransanum er það algjör falleinkunn,“ segir Stefán.

 

 

Þrjár innlendar auglýsingastofur voru fengnar í að koma með tillögur og á endanum var það Brandenburg sem var hlutskörpust. Merkið sjálft var tilbúið sumarið 2019 en ákveðið var að bíða með kynningu þess í eitt ár. Merkið lak hins vegar út með kynningu Puma á nýjum treyjusamningi milli KSÍ og félagsins.

„Við höfðum náð að læsa það inni bæði á auglýsingastofunni og hér á skrifstofunni í nærri heilt ár og það lak því enginn. Það var því mikið kjaftshögg að sjá það birtast hjá Puma. En þrátt fyrir það endaði málið eins vel og það gat úr því sem komið var. Við þurftum aðeins að breyta tímalínunni en það gekk vel,“ segir Stefán.

Landvættir eða saltfiskur?

Sem fyrr segir var ákveðið að vera með eitt merki fyrir sambandið og annað fyrir landsliðin. Slíkt er alþekkt hjá erlendum samböndum og má þar nefna til að mynda Þýskaland og Japan. Hið nýja merki er byggt á landvættunum fjórum – sem tóku á móti kunnugum manni í hvalslíki sem hingað á að hafa komið að beiðni Haraldar Danakonungs Gormssonar – drekinn í Vopnafirði, gammurinn í Eyjafirði, griðungurinn á Breiðafirði og bergrisinn á Víkarsskeiði á Reykjanesi. Stefán hlær þegar hann er spurður að því hvort það hafi annaðhvort verið landvættirnar eða saltfiskurinn sem hafi komið til greina.

„Það er mikil saga og dulúð í merkinu. Þarna renna saman stuðlaberg og landvættirnar í einni heild. Merkið felur einnig í sér það sem hefur einkennt Íslendinga, ef við vinnum ekki betur saman en andstæðingurinn, sem oftar en ekki hefur betri einstaklinga í sínu liði, þá munum við ekki sigra leikinn,“ segir Stefán. Hið nýja merki býður einnig upp á að hægt sé að brjóta það upp, til að mynda er stefnt að því að hafa eina landvætti á hverjum hornfána heimavallar liðsins.

Starfsfólk KSÍ hefur verið í óðaönn að taka á móti nýjum varningi frá Puma. Hið gamla frá Errea var sent til Úsbekistan og Vanúatú.   VB MYND/EYÞÓR ÁRNASON

Samhliða kynningu á nýju merki var ný landsliðstreyja kynnt til sögunnar. Nítján ára samstarf KSÍ og ítalska framleiðandans Errea hefur runnið sitt skeið og nú mun liðið leika í Puma. „Þau voru rosalega hrifin af því sem við vorum að gera og þar spilaði nýja merkið og sagan stórt hlutverk. Samningurinn er allt öðruvísi og sveigjanlegri en sá sem var við Errea og veitir KSÍ meira frelsi til að framleiða eigin varning. Puma ætlar síðan ekki aðeins að vera með landsliðstreyjur heldur er ýmis konar annar varningur í pípunum. Þetta þýðir að við verðum söludrifnari innanhúss, verðum með netverslun og vonandi auknar tekjur samhliða því,“ segir Stefán.

Popp yfir samfélagsmiðlunum

Bæði merkin fengu misjöfn viðbrögð til að byrja með á samfélagsmiðlum og í knattspyrnuhreyfingunni. Slíkt truflar Stefán ekki. „Ég hafði upphaflega áætlað að taka mér örfáa daga í frí til að poppa og fylgjast með samfélagsmiðlum. Auðvitað eru aldrei allir sáttir, en það er mikilvægt að fólk átti sig á tilganginum með þessari breytingu. Landsliðið er orðið eitt alstærsta vörumerki landsins og það er sama í hvaða krummaskurð maður kemur úti í heimi, alltaf tekur einhver á móti manni með víkingaklappi,“ segir Sveinn.

Nánar er rætt við Stefán í Viðskiptablaðinu og ber þar meðal annars Laugardalsvöll og rafíþróttir á góma. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér