„Þetta er alveg í takt við það sem við reiknuðum með,“ segir Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, um uppgjör sjóðsins á fyrri hluta árs 2013 en tap af rekstri hans á tímabilinu nam 2.978 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra nam tap sjóðsins 3.109 milljónum króna.

Sigurður segir tapið að mestu koma til vegna mikils fjölda fullnustueigna í eigu sjóðsins og vegna vanskila útlána. Fullnustueignir sjóðsins í lok tímabilsins voru 2.546 og hafði þeim fjölgað um 322 frá áramótum. „Við erum með allar þessar fullnustueignir og það er frekar að bætast í heldur en hitt. Svo litast niðurstaðan af því að það eru ennþá töluverð vanskil þó svo að þau séu að togast í rétta átt. Þetta eru þessir stóru þættir sem hafa áhrif á niðurstöðuna,“ segir Sigurður.

Aðspurður hvort vænta megi breytinga á rekstrarniðurstöðu á næstunni svarar Sigurður að engra stórtíðinda sé að vænta í afkomu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .