Engir erlendir sérfræðingar starfa í dag með íslenskum stjórnvöldum við að móta stefnu í málefnum sem tengjast eignum aðila hér á landi og uppgjöri gagnvart kröfuhöfum föllnu viðskiptabankanna. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við spurningu sem lesandi Spyr.is óskaði eftir svari við í desember og birt er á heimasíðu Spyr.is.

Í svari ráðuneytisins kemur enn fremur fram að þó svo að enginn sérfræðingur sé starfandi með stjórnvöldum þá sé samstarfshópur fyrir hendi sem vinnur að afnámi gjaldeyrishafta en engir erlendir aðilar koma að vinnu við uppgjör eigna erlendra aðila.

Spurningin sem Spyr óskaði eftir að yrði svarað var svohljóðandi:

„Hvaða erlendir sérfræðingar starfa með íslenskum stjórnvöldum að mótun stefnu í málefnum sem tengjast eignum erlendra aðila hér á landi og uppgjöri gagnvart kröfuhöfum hinna föllnu viðskiptabanka?“

Svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins:

„Eins og staðan er í dag starfa engir erlendir sérfræðingar með íslenskum stjórnvöldum við að móta stefnu í málefnum sem tengjast eignum aðila hér á landi og uppgjöri gagnvart kröfuhöfum hinna föllnu viðskiptabanka. Hinsvegar er starfandi samstarfshópur Íslands og ESB með fulltrúum frá AGS og ESB (Evrópska Seðlabankanum) um gjaldeyrishöft og afnám þeirra. Stefnumótun á þessu sviði er alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.“