Stýrivaxtanefnd Englandsbanka samþykkti einróma ákvörðun í vikunni um að leita samþykkis stjórnvalda til að auka peningamagn í umferð þar sem stýrivaxtalækkanir bankans virðast ekki hleypa því lífi í hagkerfið sem bankinn var að vonast eftir.

Nefndin hélt fund þann 5. febrúar s.l. en samkvæmt venju hefur fundargerðin nú verið birt opinberlega.

Breska blaðið The Daily Telegraph greinir í dag frá því að Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka hefur þegar ritað Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands bréf þar sem farið er fram á heimild til að auka peningamagn í umferð.

Með auknu peningamagni í umferð er talið að bankar og fjármálastofnanir fari að lána fjármagn á ný auk þess sem einkaneysla muni aukast.

Á fundin nefndarinnar fyrr í mánuðinum kaus nefndin með átta atkvæðum gegn einu að lækka stýrivexti um 50 punkta, úr 1,5% í 1% en stýrivextir bankans hafa nú aldrei verið lægri í rúmlega 300 ára sögu bankans.

David Blanchflower, sem að sögn Telegraph hefur lengi varað við samdrætti í hagkerfinu, vildi hins vegar lækka stýrivexti niður í 0%.

Hins vegar kemur fram í fundargögnum nefndarinnar að talin sé hætt á því að með lágum stýrivöxtum muni fjármálastofnanir engu að síður takmarka útlán sin því ekki sé hægt að rukka viðskiptavini um prósentur til að brúa bilið til að mæta kostnaði.

Greiningaraðilar sem Telegraph ræddi við hafa blendnar tilfinningar til óska Englandsbanka. Sumir telja það jákvætt skref að „setja prentvélarnar á fullt,“ eins og einn orðar það þar sem Bretar geti með þeim hætti prentað sig út úr samdrættinum nokkuð hratt.

Hins vegar eru allir viðmælendur blaðsins sammála um að aukið peningamagn muni keyra upp verðbólguna en einhverjir telja þó að það sé seinni tíma vandamál sem megi eiga við síðar þegar ró er komin á fjármálamarkaði.