Gera má ráð fyrir að tap flugfélaga víðs vegar um heiminn nemi 11 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári og 5,6 milljörðum á næsta ári.

Þetta kemur fram í enn einni svartsýnisskýrslu Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA), sem birt var í morgun, en í mars á þessu ári sagði IATA að flugfélög á heimsvísu myndu líklega tapa um 4,7 milljörðum dala á þessu ári. Undir síðustu áramót spáði IATA 2,5 milljarða dala tapi flugfélaga á heimsvísu fyrir árið 2009.

Þá hafði IATA áður gert ráð fyrir 3,8 milljarða tapi flugfélaga á næsta ári þannig að sú tala hefur hækkað nokkuð frá því í sumar. Rétt er að minna á að IATA breytti spá sinni fyrir 2009 þrisvar sinnum þar sem gert var ráð fyrir meira tapi með hverri skýrslunni.

Samkvæmt skýrslu IATA hefur mikill samdráttur átt sér stað bæði í farþegaflugi og ekki síst fraktflugi. Í skýrslunni talar Giovanni Bisignani, framkvæmdastjóri IATA um árið sem Annus Horribilis. Hér verður það látið ógert að þýða þessi orð.

En það er þó bjartsýnistónn í skýrslunni. „Það versta er líklega yfirstaðið,“ segir Bisignani og vitnar í skýrsluna þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir aukningu bæði í fraktflugi og farþegaflugi strax á næsta ári. Þannig gerir IATA ráð fyrir að flugumferð á næsta ári verði með svipuðu móti og árið 2007.