Viðskiptaskuld á milli félaga tengt World Class er talin riftanleg, kjörinn talin óeðlileg og er talið að viðskiptin hafi falið í sér gjafagjörning. Þetta er mat Héraðsdóms Reykjavíkur vegna útgáfu á skuldabréfi . Dómsuppsaga var í málinu í dag. Einni kröfu í málinu var vísað frá.

Björn átti Þrek sem rak líkamsræktarstöðvar World Class. Reksturinn fór í þrot síðla árs 2009 og ber þrotabúið heitið ÞS69 í dag. Björn keypti rekstur stöðvanna úr þrotabúinu í nafni félagsins Laugar sem hann á með öðrum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að söluandvirðið hafi numið 25 milljónum króna. Kröfur í þrotabú Þreks námu á sama tíma 2,2 milljörðum króna. Skiptastjóri hefur í gegnum tíðina sagt verðið alltof lágt.

Í febrúar sama ár og reksturinn fór í þrot var viðskiptaskuld upp á um 94 milljónir króna breytt í vaxtalaust verðtryggt lán til tíu ára með verðbótum án veðtrygginga. Skiptastjóri þrotabús Þreks hefur reynt að fá gjörningnum rift síðan í fyrra. Þetta er eitt nokkurra riftunarmála þrotabús Þreks. Búið er að greiða í kringum 30 milljónir króna inn á lánið síðan þetta var og stendur lánið í um 60 milljónum króna.

Næstu skref í máli munu þau að þrotabúið höfði sérstakt mál til innheimtu fjárkröfunnar eða málsaðilar setjist niður og semji um þau verðmæti sem talið er að hafi falist í viðskiptunum.

Þetta er eitt mál af mörgum sem tengist sölunni á rekstri World Class á milli félaga. Búið er að sætta eitt mál og er beðið matsgerðar í öðru máli sem áætlað er að verði tekið fyrir í héraðsdómi síðar í mánuðinum.