Niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málum Kaupþings gegn tveimur fyrrum starfsmönnum, Þórði Pálssyni og Helga Þór Berg, hefur enn ekki verið áfrýjað. Gunnar Egill Egilsson, lögmaður Helga Þórs, segir það þó líklegt að svo verði gert. Ákvörðun héraðsdóms lá fyrir 9. maí síðastliðinn.

Málið snýst um sjálfskuldarábyrgðir starfsmanna sem fengu lán hjá bankanum fyrir hlutabréfakaupum. Ábyrgðirnar námu 10% af heildarlánum og nemur upphæðin um 642 milljónum í tilviki Helga Þórs og um 27 milljónum hjá Þórði. Yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar um að fella niður þessar ábyrgðir, rétt fyrir fall bankans, var rift í héraði.

Mikilvægt þykir að fá niðurstöðu Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn Kaupþings fékk alls 71 starfsmaður lán fyrir hlutabréfakaupum og er ágreiningur um 24 mál. Samið hefur verið um önnur, en þau eru þó bundin endanlegri niðurstöðu Hæstaréttar.