Enn eru um 38 þúsund viðskiptavinir XL Leisure Group strandaglópar víðs vegar um heiminn en að sögn BBC er unnið hörðum höndum að því að koma þeim heim.

Nú erum um tvær vikur síðan flugvélar XL voru kyrrsettar en félagið varð gjaldþrota nokkrum dögum síðar.

Samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum í Bretlandi (Civil Aviation Authority) tókst að koma tæplega 47 þúsund farþegum heim til Bretlands eftir gjaldþrotið en um 85 þúsund manns voru á ferðalagi þegar vélarnar voru kyrrsettar.

Talsmaður CAA segir að vel hafi gengið að koma þeim heim sem þegar hafa ekki fundið sínar eigin leiðir. Þá sé vert að hafa í huga að margir voru nýkomnir á áfangastað þegar XL varð gjaldþrota þannig að enn er fólk að „klára fríin sín“ eins og það er orðað á vef BBC.

Þeir sem hafa þurft að dvelja lengur en áætlað var geta samkvæmt frétt BBC gert kröfu á yfirvöld í Bretlandi um endurgreiðslu hótelreikninga.

Þá segir talsmaður CAA að aðrar ferðaskrifstofur og flugfélög hafi brugðist fljótt við og aðstoðað við að koma ferðalöngum heim.