Gistinætur voru 4,3 milljónir talsins í fyrra. Það er tæplega 15% aukning á milli ára, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Gistinætur erlendra gesta voru 79% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði þeim um 17% frá árinu 2012. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 8% á milli ára.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að tveir þriðju allra gistinátta voru á hótelum og gistiheimilum, 12% á tjaldsvæðum og 22% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum á milli ára nema á Vestfjörðum.

Þjóðverjar voru í meirihluta þeirra sem gistu á hótelum í fyrra. Á eftir þeim komu Bretar og Bandaríkjamenn.