*

miðvikudagur, 28. október 2020
Erlent 24. ágúst 2019 18:23

Enn hækkar Trump tolla á Kína

Markaðir hrynja eftir að forseti Bandaríkjanna fyrirskipar bandarískum fyrirtækjum að flytja starfsemi sína frá Kína.

Ritstjórn
Jay Powell var skipaður seðlabankastjóri Bandaríkjanna af Donald Trump sem nú er ekki par sáttur við að bankinn sé ekki tilbúinn að lækka vexti til að styðja við tolladeilur sínar við Kína.
Aðsend mynd

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti seint í gærkvöldi að hann hyggðist hækka núverandi tolla og bæta við nýjum á kínverskar vörur. Kom tilkynningin í kjölfar þess að hann varaði bandarísk fyrirtæki við fyrr um daginn og sagði þau þurfa að yfirgefa Kína.

Í röð tísta sem forsetinn sendi frá sér sagðist hann ætla að hækka núverandi tolla sem eru á innflutning fyrir andvirði 250 milljarða Bandaríkjadala úr 25% í 30% þann 1. október næstkomandi. Jafnframt sagðist hann ætla að hækka tolla á 300 milljarða dala innflutning til viðbótar sem á að taka gildi 1. september næstkomandi úr 10% í 15%.

Var tilkynningin rúsínan í pylsuendanum á róstursömum degi á fjármálamörkuðum heims, sem hófst með tilkynningu frá Kínverjum um að þeir myndu setja ný gjöld á anvirði 75 milljarða dala innflutning bandarískra vara.

Að auki varaði Jay Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna við að því að bankanum væri ófært um að grípa til aðgerða sem myndu vega upp afleiðingar tolladeilna Kína og Bandaríkjanna.

Það fór aftur ekki vel í Trump sem kallaði Powell „óvin“ vegna þess að hann væri ekki tilbúinn að lækka vexti og sagðist hann í framhaldinu skipa bandarískum fyrirtækjum að leita leiða til að loka starfsemi sinni í Kína.

„Við þurfum ekki Kína og í sannleika sagt, værum við mun betur stödd án þeirra,“ tísti Trump. „Okkar frábæru bandarísku fyrirtækjum er hér með skipað að byrja strax að leita að valkostum við Kína, þar með talið að flytja fyrirtækin HEIM og framleiða vörur ykkar í BANDARÍKJUNUM.“

Í framhaldinu hrundu hlutabréf í virði, til að mynda lækkaði S&P 500 vísitalan um 2,59%, Dow Jones vísitalan um 2,37% og Nasdaq Composite vísitalan um 3%. Á sama tíma flykktust fjárfestar í bandarísk ríkisskuldabréf og lækkaði ávöxtunarkrafan á tveggja ára bréfin um 10 punkta á tímabili, eða niður í 1,51%, og ávöxtunarkrafan á 10 ára skuldabréf lækkaði niður fyrir það.

Er þetta í fjórða sinn í þessum máli sem ferill ávöxtunarkröfunnar hefur orðið neikvæður, sem hefur gerst í aðdraganda þess að kreppa hefur skollið á í Bandaríkjunum í hvert eina skipti síðustu 50 árin. „Eina spurning mín er, hver er stærri óvinur, Jay Powell eða Xi formaður?“ tísti Trump jafnframt og vísaði þar í forseta Kína, Xi Jinping.

Segist vera útvalinn til að takast á við Kína og sigurinn sé á leiðinni

Loks mæltist Trump til þess að bandaríski pósturinn, sem og FexEx, UPS og Amazon myndu leita og hafna póstsendingum sem innihéldu ópíumafurðina fentanyl frá Kína, og sagði hann að stjórnvöld í landinu hefðu ekki staðið við loforð um að stöðva slíkar sendingar.

Fulltrúar stjórnvalda í Bandaríkjunum hafa sagt að þeir búist enn við að hitta fulltrúa Kína í september til að ræða tolladeilurnar þó enn sé óvíst hvort af þeim verður að því er FT segir frá.

Trump virðist þó vera enn ákveðnari, því á miðvikudag sagði hann „Ég er hinn útvaldi. Einhver þurfti að gera það,“ lét hann hafa eftir sér. „Ég er að takast á við Kína í viðskiptum. Og vitiði hvað? Við erum að sigra.“