Það kvað við nýjan tón, enn á ný, hjá dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara undir lok síðasta mánaðar. Þá skilaði nefndin – hér eftir verður vísað til hennar með þeim hætti – því mati sínu að allir eftirstandandi umsækjendur væru jafnhæfir til að hljóta skipun í tvö laus embætti í Hæstarétti.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Viðskiptablaðið fjallar um innbyrðis samræmi, eða öllu heldur skort á því, í umsögnum nefndarinnar. Nefndinni var komið á fót með breytingu á eldri dómstólalögum árið 2010 og hefur nefndin yfirleitt metið fjölda hæfustu umsækjenda jafnan lausum embættum. Frá því eru þrjár undantekningar á árunum 2012-2015, ein við skipan hæstaréttardómara undir lok árs 2019 og önnur í byrjun þessa árs vegna setningar í tvær stöður í Landsrétti. Síðastnefnda álitið var að auki án rökstuðnings fyrir niðurstöðum nefndarinnar.

Þann 10. júlí voru auglýst laus til umsóknar tvö embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Átta sóttu um en tvö drógu umsóknir sínar til baka í ferlinu. Eftir stóðu landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Þorgeir Ingi Njálsson og síðan Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen, báðar prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands.

Matinu breytt eftir umsagnir

Langan tíma tók að manna nefndina en fjórir aðalmenn, auk eins varamanns, véku sæti í málinu vegna tengsla við umsækjendur. Nefndin var því ekki fullmönnuð fyrr en í lok ágúst, en frá þeim tíma hefur hún almennt sex vikur til að skila áliti sínu. Drög að áliti voru send umsækjendum 13. október en samkvæmt því voru landsréttardómararnir ofar á blaði en prófessorarnir tveir. Vó þar reynsla af dómstörfum þyngst en Björg hefur verið settur dómari við Landsrétt í sex mánuði á árinu 2020 og Ása í fjóra mánuði. Þá tók hún sæti í átta málum í Hæstarétti árið 2018.

Athugasemdir bárust frá öllum umsækjendum en að teknu tilliti til þeirra voru gerðar breytingar á vinnuskjali um færni til að semja dóma og nægðu þær til að allir umsækjendurnir sex voru metnir jafnhæfir. Heimildir blaðsins herma að lítið af nýjum gögnum hafi bæst við. Breytt mat var sent umsækjendum aftur til umsagnar en eftir því sem blaðið kemst næst hefur slíkt verklag ekki verið viðhaft áður.

Valið í nefndina er lögákveðið. Hæstiréttur, Landsréttur og dómstólasýslan tilnefna einn mann hver og skal formaðurinn valinn af Hæstarétti. Fulltrúi dómstólasýslunar má ekki vera starfandi dómari. Lögmannafélag Íslands tilnefnir þann fjórða en sá síðasti skal valinn af Alþingi. Meirihluti nefndarinnar hefur vanalega komið úr hópi lögfræðinga, þá dómara og lögmanna í bland. Þingið hefur aftur á móti stundum valið – slíkt er að norskri fyrirmynd – nefndarmann sem ekki er lögfræðingur og hefur sú hugsun þá legið að baki að auka fjölbreytni í bakgrunni nefndarmanna.

Viðskiptablaðið hefur rætt við ýmsa aðila innan lögfræðinnar í kjölfar álits nefndarinnar nú. Af álitinu nú er það mat manna að nefndarmenn hafi lent í talsverðu brasi með að ná saman um hvert þeirra bæri að meta hæfast. Skiptar skoðanir eru á því hvað hafi orðið til þess að nefndin breytti mati sínu eftir umsagnarferlið hið fyrra. Nokkrir viðruðu síðan vangaveltur um að mögulega hafi komið til utankomandi þrýstings án þess þó að geta fest fingur á hvaðan sá þrýstingur ætti að hafa komið.

Sem stendur eru fimm af sjö stöðum dómara við Hæstarétt mannaðar. Þær skipa fjórir karlar og ein kona. Viðmælendur blaðsins bentu á að breytingin á matinu auki líkurnar á því að tvær konur til viðbótar bætist í réttinn. Fyrri drögin hefðu á móti líklega þýtt að eitt af hvoru kyni hefði hlotið skipun. Í ljósi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem og túlkunar og framkvæmdar kærunefndar jafnréttismála á þeim lögum, gæti það orðið gestaþraut fyrir ráðherra að skipa karl í embættið án þess að höggva nærri þanþoli þeirra laga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .