*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 22. janúar 2020 16:53

Enn hótar Trump tollum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hótað að leggja tolla á bíla sem framleiddir eru á Evrópusambandssvæðinu.

Ritstjórn
epa

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hótað að leggja „háa tolla“ á bíla sem framleiddir eru á Evrópusambandssvæðinu og fluttir inn til Bandaríkjanna ef sambandið samþykkir ekki nýjan viðskiptasamning við Bandaríkin. Reuters greinir frá þessu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump hefur hótað að leggja tolla á bílainnflutning frá Evrópu, í þeirri von um að tryggja Bandaríkjunum betri samningsskilmála. Hann hefur þó í nokkur skipti slegið því á frest að láta tollana verða að veruleika.

„Ég hitti nýlega nýjan forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem er frábær og áttum við mjög gott samtal. En ég sagði við hana: Ef við komumst ekkert áfram með viðræðurnar, mun ég þurfa að grípa til aðgerða og þær aðgerðir fælust í að leggja háa tolla á bíla og annann varning sem fluttur er inn í landið okkar frá Evrópusambandssvæðinu,“ sagði Trump í viðtali við fréttastofu CNBC sem tekið var á alþjóðlega efnahagsþinginu í Davos.

Umræddur nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB er fyrrum varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, en hún tók við starfinu af Jean-Claude Juncker í lok síðasta árs og varð hún þar með fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu.

Stikkorð: ESB Donald Trump tollar