Hlutabréf á evrópskum mörkuðum halda áfram að lækka í verði, en fjárfestar hafa enn áhyggjur af hagvaxtarhorfum í álfunni og af því hvort inngripsaðgerðir evrópska seðlabankans nægi til að snúa við þeirri þróun.

Í frétt Bloomberg er haft eftir Benedict Götte, stofnanda eignastýringarfyrirtækisins Compass Capital í Sviss, að lækkunin gæti verið birtingarmynd á stærri vanda. Hann gerir ekki ráð fyrir því að uppgjör evrópskra fyrirtækja fyrir þriðja ársfjórðung lyfti markaðnum upp og að ólga einkenni hlutabréfamarkaði. Hann geri ekki ráð fyrir því að botninum verði náð fyrr en í lok október eða um miðjan nóvember.

Breska FTSE vísitalan hefur lækkað um 1,11% það sem af er degi, þýska DAX um 1,69% og franska CAC vísitalan um 1,64%. Á móti þessu vegur töluverð hækkun í Asíu, en japanska Nikkei vísitalan hækkaði um 3,98% í dag.