Greining Kaupþings stóð fyrir fjölmennum morgunverðarfundi í morgun á Grand Hótel. Fundurinn bara yfirskriftina; Efnahagshorfur að vetri, veltur allt á krónunni?

Ingólfur Helgasson forstjóri Kaupþings tók til máls á fundinum og sagði meðal annars að þó að öll umræða um framtíð krónunnar ætti rétt á sér hefði umræðan sem hófst í síðustu viku verið frekar ýkt. Þá vakti Ingólfur athygli á því að í sömu viku og andláti krónunnar var spáð hafi stærsta krónubréfaútgáfa frá upphafi litið dagsins ljós. Í þessu sambandi væri því allt tal um að krónan væri liðinn tíð orðum aukið enda hafi erlendir fjárfestar aldrei haft eins mikinn áhuga á krónunni og nú.

Á fundinum fjallaði Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningar Kaupþings um efnahagshorfurnar framundan. Ásgeir sagði að breytingar væru framundan í hagkerfinu þeim skilningi að hagvöxtur yrði á næstu misserum drifinn áfram af vaxandi útflutningi en ekki fjárfestinum í stóriðju líkt og áður. ?Flest bendir því til þess að nægt eldsneyti sé til staðar til þess að halda hita á hagkerfinu út árið 2007 og jafnvel lengur,? sagði Ásgeir. Af þessum sökum hefur greining Kaupþings hækkað hagvaxtarspá sína fyrir árið 2007 frá síðustu spá sem birtist í október og er nú gert ráð fyrir 3,4% hagvexti samanborið við 0,2% samdrátt sem áætlaður var í haust.

Þá sagði Ásgeir að lending hagkerfisins væri ekki framundan í bráð enda myndi viðskiptahallinn lokast hægar en áður hefur verið gert ráð fyrir og ennþá væri töluverður verðbólguþrýstingur undirliggjandi í hagkerfinu.

Greining Kaupþings gerir ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans verði í kringum 11% í lok þessa árs og að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferilinn strax í apríl eða maí á þessu ári. Samkvæmt spá Kaupþings mun Seðlabankinn ná 2,5% verðbólgumarkmiði sínu á þessu ári en á næsta ári eykst verðbólga á ný.

Krónan viðkvæm fyrir fréttum

Á fundinum tók einnig til máls Steingrímur Arnar Finnsson sem fjallaði um hávaxtamyntina krónuna. Steingrímur sagði að á síðustu 18 mánuðum hafi átt sér stað vatnaskil á gjaldeyrismarkaði með innreið erlendra fjárfesta. ?Skammtímafjármagn hefur safnast upp og er nú talið að skammtímastöður erlendra fjárfesta á gjaldeyrismarkaði sé í kringum 500 milljarða króna,? sagði Steingrímur. Steingrímur telur að þróun krónunnar á næstu mánuðum verði á svipuðu bili og nú. ?Þá verður krónan áfram afar viðkvæm fyrir öllum fréttum,? sagði Steingrímur. Greining Kaupþings telur hættu á veikingu þegar horft er til lengri tíma eða næstu 6-18 mánuði en þegar til lengri tíma er litið mun krónan leita í átt að jafnvægisgildi sínu sem er í kringum 125 til 135 stig á vísitölunni.

Erlend vinnuafl er mikill ábati fyrir hagkerfið

Loks talaði Þóra Helgadóttir sérfræðingur greiningar Kaupþings um áhrif erlends vinnuafls á íslenska hagkerfið. Þóra sagði að Ísland ætti um þessar mundir norðurlandamet í innflutningi erlends vinnuafls en á síðasta ári komu ellefu þúsund manns inn á vinnumarkaðinn. ?Hagfræðingar telja að innflæði erlends vinnuafls feli í sér ábata fyrir hagkerfið til langs tíma. Ef ekki hefði verið fyrir erlent vinnuafl væri verðbólga hér meiri sem og launaskrið,? sagði Þóra.