Menn hafa tekið því sem nokk sjálfsögðum, og í raun sem afskaplega jákvæðum hlut, að enskan hefur aukið vægi sitt á Íslandi verulega undanfarin 20 ár. Á frekar skömmum tíma hefur enskukunnátta orðið svo mikilvæg að varla er hægt að fá vinnu í banka eða hjá fjármálafyrirtæki án þess að hafa mjög góða kunnáttu í ensku. En krafan um enskukunnáttuna er farin að breiða úr sér, út fyrir fjármálafyrirtækin.

Það var eftir því tekið, að þótt hingað til hafi menn ekki þurft að dúxa í ensku til að verða gjaldgengir í pólitík var samningur um samruna milli íslensku fyrirtækjanna REI og Geysis Green Energy settur fyrir framan borgarstjóra Reykjavíkur, upp á nokkra tugi blaðsíðna - og allar á hinu ylhýra og ástkæra tungumáli: enskunni. Það er því ekki nema von að mönnum bregði við og fólk hugsi með sér: "Hvert stefnum við?" Má búast við að samningur launþega og vinnuveitenda verði settur fram á ensku? Hvers vegna í ósköpunum er samningur um samruna tveggja íslenskra fyrirtækja settur fram og sýndur á einu tungumáli, það er erlendu tungumáli, ekki á tungumáli samningsaðilanna? Hvaðan kemur það? Þegar litið er til fjármálageirans og þeirra fyrirtækja sem eru í útrás, sést að það sama er uppi á teningnum.

Í hundrað og tuttugu ár hefur Landsbankinn gefið út ársskýrslur sínar á íslensku en fyrir nokkrum árum síðan fór hann að gefa hana einnig út á ensku. Í fyrra hætti bankinn að gefa hana út á íslensku og gefur hana aðeins út á ensku. Nokkrum árum fyrr höfðu Glitnir og Kaupþing banki hætt að gefa ársskýrslur sínar út á íslensku og nú gefa stærstu bankarnir þrír ársskýrslur sínar aðeins út á ensku.

Lesið úttekt Barkar Gunnarssonar í helgarblaði Viðskiptablaðsins.