Þegar menn sitja með ferðatölvur í fanginu hækkar hitastigið á eistunum með þeirri afleiðingu að það getur haft áhrif á gæði sæðisins. Þetta kemur fram á vef Reuter.

Samkvæmt rannsókn Dr. Yefim Sheynkin þvagfæralæknis við Háskólann í New York kemur í ljós að lítið er hægt að gera við hækkun hitastigsins. Rannsakendur festu hitamæli við punginn á 29 mönnum sem voru með ferðatölvu í fanginu. Á 10-15 mínutum hækkaði hitastigið yfir það sem telst vera hættulaust.

Að sögn Dr. Sheynkin hafa engar rannsóknir verið gerðar á því hvort ferðatölvur hafi áhrif á frjósemi manna og engar skotheldar sannanir fyrir að svo sé. Eldri rannsóknir sýna að hækkun hitastigs um 1 gráðu á celsius nægi til að skaða sæðið. Við venjulegar kringumstæður eru eistun fyrir utan líkaman og því fáeinum gráðum kaldari en líkamshiti, sem er nauðsynlegt fyrir framleiðslu á sæði.

Dr. Sheynkin fullyrðir ekki að notkun fartölva með þessum hætti geri menn ófrjóa en mikil notkun kunni að hafa áhrif á framleiðslu sæðis. Samkvæmt Bandaríska þvagfæralæknafélaginu (e. American Urological Association) á eitt af hverjum sex pörum í vandræðum með að geta barn og er í helmingi tilfella hægt að rekja vandræðin til mannsins.