Afkoman á árinu 2020 er ásættanleg í ljósi aðstæðna. Covid-19 hafði mikil áhrif á alla starfsemi félagsins,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brims í uppgjörstilkynningu félagsins. Hagnaður félagsins lækkaði úr 34 milljónum í 29,4 milljónir evra á milli ára, eða úr 5,2 milljörðum króna í 4,5 milljarða króna.

Lagt er til að félagið greiði 2,4 milljarða króna í arð vegna starfsemi síðasta árs.

Afkoman á fjórða ársfjórðungi batnaði úr 5,5 milljóna evra hagnaði í 7,9 milljóna evra hagnað þó rekstrartekjur hafi dregist saman úr 90,8 milljónum evra í 78,7 milljónir evra.

Rekstrartekjur Brims á öllu árinu 2020 jukust úr 261 milljóna evra í 292 milljónir evra á milli ára en EBITDA hagnaður ársins lækkaði úr 63 milljónum í 57 milljónir evra. Munurinn skýrist af nokkur leyti af því að Brim keypti sölufélög í Asíu á árinu 2019 af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, aðaleiganda Brims, sem eykur veltu en lækkar EBITDA hagnaðarhlutfall.

Guðmundur segir starfsfólk félagsins hafa staðið sig vel undir miklu álagi. „Tekjur af veiðum og vinnslu botnfisks dróst saman vegna Covid-19 og vegna lokunar á fiskvinnslu félagsins í Reykjavík í nokkra mánuði vegna endurnýjunar á vinnslubúnaði og í því ljósi er afkoma félagsins viðunandi,“ segir hann.

Þá hafi félagið fjárfest verulega á árinu. „Á Íslandi jók félagið aflaheimildir með fjárfestingum í Fiskvinnslunni Kambi í Hafnarfirði og útgerðarfélaginu Þórsbergi á Tálknafirði. Einnig endurnýjaði félagið botnfiskvinnslu sína í Norðurgarði í Reykjavík með uppsetningu á hátæknibúnaði. Þá fjárfesti félagið einnig í grænlenska sjávarútvegsfélaginu Arctic Prime Fisheries og í sölufélaginu Iceland Pelagic,“ bendir Guðmundur á.

„Heildareignir Brims jukust um 64 milljónir evra á árinu og voru við árslok 765 milljónir evra. Eiginfjárstaða félagsins er mjög sterk og er eigið fé yfir 50 milljarðar króna sem er að mestu leyti kyrrsettur hagnaður félagsins síðustu áratugi,“ segir hann.

„Þó svo árið 2020 hafi á köflum verið erfitt munum við hjá Brimi ekki síður minnast þess fyrir miklar fjárfestingar í gagngerri endurnýjun og vexti. Erfiðleikarnir hertu okkur og styrktu. Við erum vel í stakk búin til að takast á við vaxandi samkeppni á alþjóðamörkuðum og á sama tíma sinna því hlutverki félagsins að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti úr sameiginlegum náttúruauðlindum sem Brimi er treyst fyrir og að tryggja viðskiptavinum um allan heim stöðugt framboð af heilnæmu sjávarfangi sem unnið er úr sjálfbærum fiskistofnum við Ísland,“ bætir Guðmundur við.