Að sögn Árna Péturs Jónssonar, forstjóra Teymis, hefur engin ákvörðun verið tekin um sölu eigna félagsins, en það sé eitt þeirra atriða sem stjórnendur félagsins eru að skoða.

Árni var spurður hvort tilboð hefði borist í EJS, en upplýsingar um það höfðu borist til Viðskiptablaðsins, en hann sagði það ekki rétt.

Dótturfélög Teymis eru 9 talsins. Í daglegu tali er þeim skipt í tvo aðskilda hópa; fjarskiptahluta Teymis annars vegar og upplýsingatæknihluta (UT) hins vegar. Fjarskiptafyrirtækin eru Vodafone, Vodafone í Færeyjum og Tal en UT-fyrirtækin eru Kögun, Skýrr, EJS, HugurAx, Landsteinar Strengur og Eskill.

Teymi var afskráð úr Kauphöllinni í ágúst síðastliðnum en þá var markaðsverðmæti félagsins 5,8 milljarðar króna og hafði gengi bréfa félagsins fallið um 72% það sem af var árinu. Á þeim tíma var einnig greint frá því að sala eigna yrði skoðuð.

Teymi tapaði 5,5 milljörðum íslenskra króna á fyrri hluta ársins. Í Viðskiptablaðinu á þeim tíma var bent á að ef rekstrarreikningur félagsins sé skoðaður megi sjá að EBITDA á fyrri hluta ársins, sem var rúmir 2 milljarðar, dugði ekki fyrir rekstrarkostnaði á þeim tíma, sem var tæpir 3,5 milljarðar króna.

Eiginfjárhlutfall félagsins í lok júní var tæp 18%. Þá hafði handbært fé dregist töluvert saman, farið úr 4,9 milljörðum í lok júní 2007 og niður í 1,3 milljarða í lok júní 2008 – eða um 75%.

Árni Pétur vildi ekki upplýsa um skuldastöðu félagsins núna.