Ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hefur verið slök síðustu árin og hafa þeir ekki náð markmiði sínu um 3,5% raunávöxtun. Þar af hefur ekki verið nein meðalávöxtun lífeyrissjóðanna af erlendri hlutabréfaeign síðastliðin tólf ár, samkvæmt Stefáni B. Gunnlaugssyni, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.

Stefán verður með málstofu á Þjóðaspegli Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands í dag þar sem hann fjallar um það hvort 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóða geti verið raunhæf á tímum gjaldeyrishafta

Fram kemur í samantekt um málstofu Stefáns að ólíklegt sé að það takist, einkum vegna þess að ávöxtunarkrafa ríkistryggra skuldabréfa er það lág að ólíklegt er að raunávöxtun lífeyrissjóðanna verði meiri en 3,5%. Þá telur hann hlutfall áhættusamra eigna, einkum alþjóðlegra hlutabréfa, of lágt til að það takist. Gjaldeyrishöft koma svo í veg fyrir að hægt er að auka vægi þessara eigna. Af þeim sökum verði það að teljast heppni hjá lífeyrissjóðunum sem gefur betri raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða en 3,5%, að mati Stefáns.

Hér má lesa nánar um þær málstofur sem verða á Þjóðarspeglinum .