Erlend greiðslukortavelta í febrúar nam 13,2 milljörðum króna. Í sama mánuði ári áður nam þessi upphæð 7,9 milljörðum króna, en þetta er aukning um 67% milli ára. Veltan á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins jókst einnig um 17% milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá rannsóknarsetri verslunarinnar.

Erlend kortavelta í febrúar jókst í öllum útgjaldaliðum. Mest varð aukningin í farþegaflutningum með flugi, eða 174% samanborið við febrúar í fyrra. Kortaveltan í þeim flokki var alls 2.791 milljónir króna í mánuðinum. Kortavelta í þeim flokki hefur tvöfaldast frá fyrra ári fjóra mánuði í röð. Velta í gistiþjónustu jókst um 46% milli ára, veitingaþjónusta um 50%, 86% í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi og 74% í flokkinn ýmis ferðaþjónusta.

Meðaltalvelta á ferðamann var 130 þúsund krónur í febrúar, en eins og áður sagði þá er það aukning um 17% milli ára. Ferðamenn frá Sviss keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 326 þúsund á hvern ferðamann. Kanadamenn eru í öðru sæti með 256 þúsund á hvern ferðamann og Spánverjar í því þriðja með 245 þúsund.