Líkt og með samdrátt í innlendri kortaveltu er líklegt að hinn mikli samdráttur erlendrar kortaveltu sé að hluta til kominn vegna þess að þeir sem halda út fyrir landsteinana hafa í auknum mæli með sér erlendan gjaldeyri í reiðufé segir í Morgunkorni Glitnis.

Sem kunnugt er voru brögð að því í október að skráð gengi erlendra kortaviðskipta væri mun óhagstæðara en seðlagengi á Íslandi. Þetta virðist þó hafa verið tímabundið ástand og er skráð gengi hjá kortafyrirtækjunum nú í takti við seðlagengi bankanna. Engu að síður virðist sýnt að neysluútgjöld heimilanna hafi dregist verulega saman í október eftir að fjármála- og gjaldeyriskreppa skall á af fullum þunga. Alls dróst kreditkortavelta að viðbættri debitkortaveltu í innlendum verslunum saman um tæp 20% á milli ára. Samdráttur einkaneyslu er þó væntanlega talsvert minni vegna ofangreindra reiðufjáráhrifa.