Umrótið á erlendum hlutafjármörkuðum hefur haft mikil áhrif á eignir lífeyrissjóðanna erlendis. Skráðar eignir þeirra erlendis hafa rýrnað um tugi milljarða að því er RÚV greinir frá.

Umrótið á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur haft talsverð áhrif á skráðar eignir lífeyrissjóðanna. Um einn fjórði af heildareignum þeirra eru erlendar, flestar þeirra eru eignir í hlutabréfasjóðum þar sem gengi er skráð daglega.

Arnar Sigurmundsson, formaður landssamtaka lífeyrissjóða, segir í samtali við RÚV að frá síðustu áramótum hafi eignir í þessum sjóðum rýrnað um 7-8%. Á móti hafi gengi krónunar gefið aðeins eftir. Arnar segir að þannig sé ekki óvarlegt að reikna með því að eignarýrnun sjóðanna sé á bilinu 6-8% í erlendum eignunum, vegna þessara hræringa. Þá skuli þó hafa í huga að margt af þessu séu langtíma eignir. Sjóðirnir séu ekki að selja þær og þær hafi bæði verið að hækka og lækka í verði innan ársins áður en þessi lækkunarhrina hafði farið af stað.

Heildar eignir lífeyrissjóðanna erlendis nema um 490 milljörðum króna, sagði Arnar í samtali við RÚV. Þannig sé ekki ótrúlegt að reikna með því, ef það væri verið að selja allar þessar eignir í dag, að það hefði áhrif upp á 20-30 milljarða. Þannig sé staðan hins vegar ekki. Arnar segir menn tiltölulega rólega yfir þessu þannig séð og voni það, eins og kannski margir að einhvern tíman rétti þetta úr kútnum.