Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair greindi frá því á aðalfundi félagsins fyrr í dag að Icelandair hyggst breyta ýmsu í rekstri sínum, og mátti á honum skilja að til greina kæmi að auka ráðningar á erlendu starfsfólki til að lækka kostnað.

Gerði hann að umtalsefni að helsti samkeppnisaðili félagsins hérlendis, Iceland Express, hafi á sínum snærum erlent starfsfólk í talsverðum mæli. Virtust honum sem fáir virði það við Icelandair að nota eingöngu íslenskar áhafnir.

„En ef til vill er það svo að viðskiptavinum sé nákvæmlega sama hvaðan áhafnir koma svo fremi þeir fái þjónustu á sem lægstu verði. Víst er að þegar upp er staðið gildir það eitt, að félag og stafsfólk geti boðið þjónustu sína á samkeppnishæfu verði ella flyst starfsemin einfaldlega annað,” sagði Gunnlaugur.

Þá mátti á honum skilja að útvistun yrði aukin til muna, þ.e. að fela utanaðkomandi aðilum umsjón með tilteknum þáttum starfseminnar.

„Rekstrarumhverfi félagsins er síbreytilegt og í harðri samkeppni er ekkert sjálfgefið hverjir lifa af. Þau fyrirtæki sem standa sig best í síbreytilegu umhverfi eru fyrirtæki með stjórn og starfsfólk sem skilur þörfina fyrir sífellda endurskoðun og endurmat fyrri gilda.  Við höfum á undanförum árum séð íslensk fyrirtæki brjótast út úr gömlum stöðnuðum hugsunarhætti og verða þróttmikil framsækin fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum.  Í dag er ekkert sjálfgefið að fyrirtæki með stór og þekkt vörumerki byggi tilveru sína á eigin framleiðslu því útvistun verkþátta er notuð í sífellt fleiri tilvikum. Vörumerkið Icelandair er vel þekkt víða um heim og á því hljótum við að byggja framtíð félagsins.”

Hann sagði það verða helsta viðfangsefni stjórnar Icelandair, forstjóra og annarra starfsmanna að leita allra leiða til að bæta afkomu flugfélagsins.

„Eðlileg arðsemi er forsenda þess að hægt verði að viðhalda og auka þróttmikið starf á sviði flugrekstrar hér á landi,” sagði hann.

Enginn arður greiddur

Gunnlaugur sagði einnig að afkoma Icelandair Cargo og Bluebird hefði ollið vonbrigðum og væri mikið undir áætlunum. Eiginfjárstaða félagsins er hins vegar sterk, eigið fé Icelandair Group í árslok 2007 var 25 milljarðar og eiginfjárhlutfall 37%

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur út arður til hluthafa í ár, vegna lítils hagnaðar annars vegar og hins vegna ástand lánamarkaða sem geri óráðlegt að skerða sjóðstöðu félagsins með arðgreiðslu í ár.