Ávöxtunarkrafa lengri skuldabréfaflokka ríkisins hefur lækkað nokkuð í dag í töluverðum viðskipum. RIKB 25 flokkurinn hafði lækkað um 7 punkta og RIKB 31 um sex punkta um klukkan 15 í dag, en samanlögð velta í viðskiptum með skuldabréfaflokkana tvo nam rúmum þremur milljörðum króna.

Ætla má að fjárfestar hafi verið að bregðast við upplýsingum, sem fram komu í Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins í gær. Þar kemur fram að eign erlendra aðila í skuldabréfaflokkunum tveimur, sem eru óverðtryggð ríkisskuldabréf í lengri endanum, hafi frá lokum mars til loka júlí aukist um 68%. Var hún 11,5 milljarðar í mars en var í júlílok 19,3 milljarðar króna. Þar af juku þeir stöðu sína um 20% í síðasta mánuði, úr 16,1 milljarði í 19,3 milljarða. Fram hefur komið að vaxtamunarviðskipti erlendra aðila hafi farið mjög vaxandi undanfarna mánuði og virðist lítið lát ætla að verða á þeim.