Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, eru nokkrir erlendir aðilar að íhuga skráningu í Kauphöllina en enginn þesara aðila hefur tekið ákvörðun um slíkt ennþá. "Það er afar líklegt að það verði af einhverri skráningu á næsta ári ef að líkum lætur því áhuginn er töluverður. Menn hafa séð að þetta hefur gengið vel með Mosaic og reyndar með bæði erlendu félögin sem hér eru skráð. Það ýtir undir áhugann hjá þeim sem eru að velta þessu fyrir sér. Ég á því fastlega von á að það verði af skráningu fleiri erlendra aðila á næsta ári."

Að sögn Þórðar hafa þrír eða fjórir aðilar verið með alvarlegar fyrirspurnir um skráningu og hann sagðist meta það svo að reikna mætti með að tveimur eða þremur erlendum skráningum hér á næsta ári. "Það tel ég ekki óraunhæfar væntingar en auðvitað fer það gríðarlega mikið eftir því hver framvindan verður á fyrri hluta árs. Það tekur ekki langan tíma að koma á skráningu þegar menn eru reiðubúnir á annað borð. Ferlið liggur vel fyrir og er þekkt og ætti því að geta gengið vel ef fyrirtækið er með sterka stöðu og jákvæðar horfur. Það er ekkert leyndarmál að mestur áhuginn er í Bretlandi og Færeyjum en við höfum reyndar fengið fyrirspurnir víðar að en ég met það svo að lengra sé í að af því verði." Þórður sagði að flest þeirra félaga sem hefðu verið að spyrjast um skráningu hefðu einhverja tengingu við Ísland sem ætti ekki að koma á óvart.

Það kom ennfremur fram hjá Þórði að eitthvað af þeim fyrirspurnum sem komið hafa til Kauphallarinnar hafa beinst að isec markaðinum sem verður opnaður innan skamms. "Þar er það sama að segja, það er töluverður fjöldi af félögum sem hefur sýnt þeim markaði áhuga og ég vona eindregið til þess að þar verði nokkur erlend félög skráð á næsta ár. -- Og þar verði hugsanlega einnig erlend félög."