Erlendir aðilar keyptu megnið af bréfum sem seld voru í síðasta útboði ríkisbréfa í ágúst samkvæmt upplýsingum í mánaðarlegu fréttabréfi Lánamála ríkisins. Erlendir aðilar áttu alls 54% af útistandandi ríkisbréfum í lok júlí og 76% af ríkisvíxlum.

Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er bent á að erlendir aðilar keyptu 76% af bréfum sem seld voru í útboðinu í flokki RIKB 11 0722 og 73% af bréfum sem seld voru í RIKB 13 0517. Samkvæmt riti Lánamála sýna útboð síðustu mánaða að erlendir aðilar eru markvisst farnir að kaupa bréf útgefin af ríkissjóði til lengri tíma en áður.

Hér er um mikla breytingu að ræða frá því fyrr á árinu þegar útlendingar einbeittu sér fyrst og fremst að kaupum á ríkisvíxlum segir í Hagsjá Landsbankans. Innlendir aðilar keyptu hins vegar allt sem selt var í RIKB 25. Bankar keyptu fyrir 4,2 ma.kr. eða 44% af seldu magni. Lífeyrissjóðir komu næst á eftir með 2,5 ma.kr.