Hollenskir og franskir fjárfestingarsjóðir hafa bæst í hóp hluthafa nýsköpunarfyrirtækisins Mint Solutions, að því er fram kemur í tilkynningu. Aðkoma þeirra er liður í hlutafjáraukningu Mint Solutions upp á 680 milljónir króna.

Hollenski fjárfestingasjóðurinn Life Science Partner leiddi aðkomu erlendu fjárfestanna og fékk til liðs við sig franska fjárfestingafélagið Seventure. Íslenskir fjárfestar sem hafa komið að félaginu síðan 2011 komu einnig að hlutafjáraukningunni. Þar á meðal er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem mun eiga 11% hlut í Mint Solutions eftir aukninguna.

Mint Solutions var stofnað árið 2010 og hefur unnið að þróun MedEye lyfjagreiningatækis fyrir sjúkrahús. Með tækinu á að vera hægt að sannreyna að sjúklingur fái rétt lyf, í réttu magni og á réttum tíma. MedEye skannar lyf myndrænt og greinir lyfjategundir til að koma í veg fyrir mistök við lyfjaskömmtun. Tækið á því að auka öryggi sjúklinga. Greiningartækið er nú notað á ADRZ-sjúkrahúsinu í Vissingen í Hollandi og til stendur að taka tækin í notkun á fleiri tugum heilbrigðisstofnana þar í landi og víðar.

Mikill fengur í aðkomu erlendra fjárfesta

Í tilkynningunni er haft eftir Maríu Rúnarsdóttur, eins stofnenda Mint Solutions, að mikill fengur sé í aðkomu erlendra hluthafa. Hlutafjáraukningin geri fyrirtækinu kleift að stækka og starfsmönnum muni fjölga í farmhaldinu. Starfsmenn Mint Solutions eru nú um 10. Nýbúið er að ráða tvo starfsmenn og stefnt er á að ráða tvo til fimm til viðbótar á Íslandi á þessu ári.

Þá segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarstjóðs atvinnulífsins, að aðkoma erlendu fjárfestanna sé í takt við það sem Nýsköðunarsjóðurinn hefur verið að leita eftir. Sjóðurinn fjárfesti snemma í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af en síðan taki aðrir fjárfestar við.

Í kjölfar hlutafjáraukningarinnar mun móðurfélag Mint Solutions flytjast til Amsterdam í Hollandi og sölustarfi fyrirtækisins stýrt þaðan. Þróunarstarf mun eftir sem áður verða á Íslandi.