„Frá afnámi hafta höfum við séð hagkerfið og markaði opnast. Hindrunum sem voru til staðar hefur fækkað. Þær eru ekki alveg horfnar en við getum sagt að fjárfesting á Íslandi sé orðin mun aðgengilegri fyrir fjárfesta úti í heimi,“ segir Haraldur Þórðarson spurður um hvernig markaðsaðstæður og fjárfestingarumhverfið á Íslandi hafi þróast frá hans sjónarhorni frá því að gjaldeyrishöft voru afnumin á síðasta ári.

Hann telur að hér muni erlendum fjárfestum fjölga í nánustu framtíð. „Erlendum fjárfestum mun fjölga og innflæði í fjárfestingar hér á landi á enn eftir að aukast til muna að mínu mati. Þetta verða ekki bara fáir og stórir fjárfestar eins og var uppi á teningnum áður en höftum var aflétt heldur munum við líklega sjá smærri fjárfesta koma í auknum mæli inn. Við þurfum að hafa í huga að þrátt fyrir þau góðu viðbrögð sem við fengum strax í kjölfar afnáms hafta þá er fjárfesting erlendra aðila, til dæmis á hlutabréfamarkaðnum, einungis í kringum 10 til 12 prósent. Í samanburðarlöndum okkar er þetta hlutfall nær því að vera á bilinu 30 til 40 prósent. Enn fremur er ljóst að breytingar á innstreymishöftum geta leitt til þess að áhugi erlendra aðila á að fjármagna innlend fyrirtæki og stofnanir glæðist töluvert.“

Veltan mun taka við sér

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun júlí hefur velta á bæði hluta- og skuldabréfamarkaði dregist töluvert saman á síðustu misserum. Velta á hlutabréfamarkaði hefur dregist nær samfellt saman frá fyrsta fjórðungi 2017 auk þess sem velta á skuldabréfamarkaði var rúmlega helmingi minni á fyrri helmingi þessa árs miðað við seinni helming 2015. Haraldur segir að eðlilega hafi þessi þróun verið áskorun fyrir Fossa eins og aðra. „Minnkandi velta hjálpar klárlega ekki aðdráttarafli markaðarins hvort sem það varðar innlenda eða erlenda fjárfesta. Þetta er búið að vera sérstakt ár fyrir margra hluta sakir. Janúar fór nefnilega ágætlega af stað en svo fór að halla undan fæti. Þetta er samspil margra þátta sem leggjast á eina sveif. Meðal þátta sem inn í spila má til dæmis nefna skráningu Arion banka. Þetta var stærsta skráning á Norðurlöndunum það sem af er ári. Arion banki er stórt félag á markaði hér á landi og bæði innlendir og erlendir aðilar héldu að sér höndum í aðdraganda útboðsins til að taka þátt í því. Það eitt skýrir minni veltu að hluta.“

Hann segir ekki hafa hjálpað til að Arion-banki hafi svo verið skráður á markað rétt fyrir rólegasta tíma ársins. „Arion-útboðið klárast rétt áður en við erum að fara inn í júlímánuð sem er að jafnaði hægasti mánuður ársins. Við bætist svo heimsmeistaramótið í knattspyrnu en viðskipti með bréf í bankanum hófust daginn fyrir leik Íslands við Argentínu.

Í lækkandi veltu hefur ávöxtun á markaði einnig verið léleg. Við höfum séð skráð félög lenda í töluverðum mótvindi í sínum rekstri, svo sem Icelandair sem hefur lækkað mikið á árinu. Þetta gerir að verkum að markaðsaðilar halda frekar að sér höndum. Minni velta leiðir því oft af sér meiri áskoranir í markaðsumhverfinu. Þetta eru margir samverkandi þættir og gerir okkar starf klárlega erfiðara þar sem seljanleiki er mjög mikilvægur mælikvarði fyrir fjárfesta hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.“

Stærsta markaðsherferð hlutabréfamarkaðsins

Myndirðu segja að minni velta sé verulegt áhyggjuefni og þarf að kynna markaðinn betur fyrir erlendum fjárfestum?

„Að mínu mati er útlitið fyrir haustið strax mun betra. Ég reikna með því að veltan taki við sér og þetta virkar alveg eins í hina áttina, að aukin velta leiði af sér enn meiri þátttöku á markaði. Markaðsaðilar verða kannski aðeins áhættusæknari aftur og það verður til aukið fjármagn í hækkandi markaði. Gagnvart erlendu fjárfestunum höfum við alltaf hag af því að markaðssetja Ísland sem fjárfestingakost. Þetta er eitthvað sem við hjá Fossum höfum frá upphafi lagt mikið upp úr. Þá var skráningin á Arion banka líklega stærsta markaðsherferð sem íslenski markaðurinn hefur fengið lengi.

Þó að veltan með bréf Arion banka hafi farið nokkuð rólega af stað hér heima þá er hún að taka við sér. Með skráningu Arion komu inn fjölmörg ný nöfn erlendra fjárfesta sem hafa ekki fjárfest á Íslandi í mörg ár, ef þá nokkurn tíma. Það er verkefni að sýna þeim fram á að hér séu aðrir fjárfestingarkostir. Við þetta bætist að hlutabréfamarkaðurinn verður líklega tekinn inn í vísitölur hjá FTSE með haustinu. Næsta mál á dagskrá verður þá að komast inn hjá MSCI sem er aðeins lengra ferli. Ef þetta gengur eftir þá fara vísitölusjóðir meðal annars að eiga viðskipti hérna. Allt þetta mun styðja við veltu á markaði. Ég tala nú ekki um að við erum farin að sjá einhver teikn um að einkafjármagn sæki í auknum mæli í fjárfestingar í skráðum félögum. Leggist þetta allt á eina sveif þá er útlitið bara nokkuð bjart.“

Nánar er rætt við Harald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .