Himinhátt skuldatryggingaálag íslensku viðskiptabankanna er enn á ný í kastljósi erlendra fjölmiðla. Eftir að það náði hæstu hæðum í mars tók það að lækka en að undanförnu hefur það farið upp í svimandi hæðir.

Breska blaðið Financial Times gerir hið svimandi háa skuldatryggingaálag Kaupþings og Glitnis að umfjöllunarefni í frétt á vef sínum í dag. Fram kemur í fréttinni að miðlarar taki núi stöðu gegn íslenska hagkerfinu og það endurspeglist í að álagið á skuldatryggingar Kaupþings og Glitnis hafi nú farið yfir 1000 punkta.

Þetta þýðir á manna máli að miðlarar borga nú 1 milljón sterlingspunda fyrir að tryggja að bankarnir standi í skilum á 10 milljónum punda á næstu fimm árum. Þrátt fyrir að álagið á Landsbankanum sé ekki jafn hátt, eða um 635 punktar, getur það vart talist endurspegla hagstæð lánakjör.

Bent er á í greininni að síðast þegar skuldatryggingaálagið endurspeglaði jafnmikla streitu hafi það var síðasta mars. Ástandið þá varð til þess að réðust stjórnvöld í kynningarherferð á íslenska fjármálakerfinu enda horfa fjárfestar til skuldatryggingaálags þegar kemur að því að meta gjaldþrotaáhættu fyrirtækja.

Rifjað er upp að Geir H.Haarde, forsætisráðherra, hafi sakað vogunarsjóði um að þrýsta upp álaginu á bankanna og að seðlabankinn hótaði að grípa til aðgerða. Í kjölfarið tók skuldatryggingaálagið að lækka og fór það niður í 400 punkta í maí.

Hinsvegar hefur það farið hækkandi síðan. Í greininni er haft eftir sérfræðingum að ekki sé ástæðulaust að velta fyrir sér hversu traustar grunnstoðir íslensku viðskiptabankanna séu. Lánsjárkreppan bitnar harðast á þeim skuldugu. Greinarhöfundur bendir á að íslensku viðskiptabankarnir hafi vaxið í krafti skuldsetningar á þeim tíma sem aðgengi að ódýru lánsfé var greitt. Jafnframt bætir það ekki úr skák að íslenska hagkerfið sé í þann mund að renna inn í samdráttarskeið.

Þrátt fyrir að skuldatryggingaálag yfir þúsund punkta endurspegli mikla gjaldþrotaáhættu segja talsmenn íslensku bankanna það fráleitt. Tekið er fram í greininni að margir sérfræðingar á fjármálamarkaði takið undir það sjónarmið. Haft er eftir einum miðlara að ekkert réttlæti hið háa skuldatryggingaálag: Hann segir að viðskiptavinir hringi áhyggjufullir og spyrji hvort að það sé ekki rétt fjárfesta í vörnum gegn gjaldþroti þar sem að álagið sé svo hátt. Hann segist hinsvegar ráðleggja þeim að gera það ekki.

Fram kemur í greininni að áhöld eru um að einhverjir miðlarar séu að reyna að blása upp skuldatryggingaálagið. Það sé gert með það að augnamiði að hagnast á stöðutökunni áður en að Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing birta uppgjör sín fyrir annan ársfjórðung. Uppgjörin birtast á næstu vikum.

Fram kemur í greininni að hvorki Glitnir né Landsbankinn vildu tjá sig um málið og að ekki hafi náðst í talsmenn Kaupþings.