Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í gær að þeirri niðurstöðu að samningar Landsvirkjunar og Landsnets við kísilmálmverksmiðju PCC frá því í mars 2015 feli ekki í sér ríkisaðstoð. Þetta kemur fram á vef ESA. Samningurinn við Landsvirkjun kveður á um kaup á raforku en samningurinn við Landsnet um flutning hennar. Upphaflega voru samningar þessa efnis undirritaðir í fyrra en eftir að ESA tilkynnti í desember að stofnunin hygðist rannsaka þá samninga voru nýir samningar undirritaðir. Það var gert í mars síð­astliðnum og því þjónaði engum tilgangi að rannsaka samninga sem ekki voru lengur í gildi. ESA hefur sem sagt núna lagt blessun sína yfir þessa nýju samninga og þar með hefur einni hindruninni fyrir byggingu verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík verið rutt úr vegi.