Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er nú með í formlegu rannsóknarferli tvö mál á sviði ríkisaðstoðar er varða íslensk stjórnvöld. Í desember á síðasta ári hóf ESA formlega rannsókn á því hvort að við sölu á eignarhluta ríkisins í Sementsverksmiðjunni hf. hafi falist ólögmætur ríkisstyrkur. Í síðustu viku hóf svo ESA formlega rannsókn á því hvort aðkoma ríkisins að FARICE hf., vegna lagningu sæstrengs, kunni að vera í andstöðu við ákvæði EES samningsins um ríkisaðstoð.

Í 61. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum, eða framleiðslu ákveðinna vara, að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Þegar ESA tekur ákvörðun um að hefja formlega rannsókn á tilteknu máli er viðkomandi ákvörðun birt í Stjórnartíðindum ESB og er þriðju aðilum þar með gefinn kostur á að senda inn athugasemdir vegna málsins. Íslenskum stjórnvöldum er jafnframt gefinn kostur á að bregðast við þeim athugasemdum sem berast og senda viðbótarupplýsingar til ESA.

Að loknu þessu formlega ferli, sem getur tekið eitt til tvö ár, tekur ESA síðan ákvörðun í viðkomandi máli. Sú ákvörðun er kæranleg til EFTA dómstólsins til endanlegrar niðurstöðu og er almennur kærufrestur tveir mánuðir frá því að ákvörðun ESA er kunngerð.

Þess má geta að nú eru tvö íslensk mál á sviði ríkisaðstoðar til meðferðar hjá EFTA dómstólnum. Annað varðar kæru ESA á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa ekki framfylgt ákvörðun ESA í tengslum við lög um alþjóðleg viðskiptafélög, sem ESA komst að þeirri niðurstöðu að fælu í sér ólögmæta ríkisaðstoð, og hitt varðar kæru Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja á hendur ESA vegna ákvörðunar ESA frá síðasta ári um
málefni Íbúðarlánasjóðs. Málflutningur í þessum málum fer fram í haust og er niðurstöðu að vænta fyrir lok árs.