Evrópsusambandið vill að ítalska bankanum Monte dei Paschi di Siena verði gert að taka meira til í bókhaldi sínu áður en ríkisaðstoð ítalska ríkisins fær blessun ESB. Joaquín Almunia, sem hefur eftirlit með bankabjörgunum í framkvæmdastjórn ESB, sagði fjármálaráðherra Ítalíu, Fabrizio Saccomanni, að ef ekki yrðu gerðar breytingar á myndi Almunia hefja sérstaka rannsókn á bankanum. Slík rannsókn tæki sex mánuði og gæti endað með því að bankanum yrði gert að endurgreiða 3,9 milljarða evra lán frá ítalska ríkinu.

Almunia segir að það sem mestu máli skipti sé fjárhagslegt heilbrigði bankans og til að tryggja það þyrfti að bæta endurskipulagningarferlið.

Meðal þess sem Almunia sagði að bæta þyrfti var kostnaðarhagræðing, færslur á afskriftarreikning, áhætta tengd ríkisskuldabréfum og of há laun æðstu starfsmanna.