Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins býr sig nú undir það að banna samruna írsku flugfélaganna Ryanair og Aer Lingus, að því er segir í frétt Financial Times. Ryanair gerði tilboð í Aer Lingus í júní í fyrra, en það er í þriðja sinn sem Ryanair gerir tilraun til að kaupa keppinautinn.

Ryanair sagði í dag að félagið hefði fundað með framkvæmdastjórn ESB og þar hefði komið fram sá ásetningur framkvæmdastjórnarinnar að banna tilboðið. Ef af þessu verður yrði það í fyrsta sinn sem ESB bannar sama samrunann tvisvar.

Fyrsta tilraun Ryanair til að eignast Aer Lingus var gerð árið 2007, en þá kom ESB í veg fyrir samrunann. Önnur tilraun var gerð árið 2009, en Ryanair dró tilboðið til baka eftir að írsk stjórnvöld lögðust gegn samrunanum.

Írska stjórnin er einnig á móti þessari nýjustu tilraun lággjaldaflugfélagsins til að taka Aer Lingus yfir og er afstaða ESB rakin til þessarar andstöðu. Talsmaður Ryanair segir að andstaða ESB sé ekki byggð á samkeppnislagalegum sjónarmiðum, heldur sé hún pólitísks eðlis og sé ætlað að tryggja þrönga pólitíska hagsmuni írsku stjórnarinnar.