Evrópusambandið setur ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að umsóknarríki gangi að öllu regluverki sambandsins óbreyttu. Það veitir ríkjum tímabundnar undanþágur til að laga sig að breyttum aðstæðun. Hingað til hafa ekki verið veittar varanlegar undanþágur, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins, sem unnin var að ósk utanríkisráðuneytisins. Skýrslan var kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna í gærkvöldi og fjallar Morgunblaðið um hana í dag.

Í skýrslunni segir að öll aðildarríki eigi að mati Evrópusambandsins að sitja við sama borð og leikreglurnar að vera þær sömu fyrir öll aðildarríki. Það eigi sérstaklega við um landbúnaðar- og fiskveiðimál.