„Þetta eru ákveðin vonbrigði af ýmsum ástæðum,“ segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um viðbrögð félagsins við lægra lánshæfismati.

Eins og fram kom fyrir stundu lækkaði Standard & Poor‘s í dag lánshæfismat Landsvirkjunar þannig að lánshæfismat vegna bæði innlendra og erlendra skuldbindinga lækkaði úr BBB- í BB með stöðugar horfur.

Stefán segir að matsfyrirtækið hafi sett Landsvirkjun á athugunarlista fyrir nokkru og gert athugasemdir við ákveðin atriði. Síðan þá hafi Landsvirkjun hins vegar unnið náið bæði með Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu í þeim tilgangi að grípa til aðgerða til að draga úr áhyggjum matsfyrirtækja.

Hann segir að það samstarf hafi gengið vel en nú sé Standard & Poor‘s að breyta hjá sér aðferðafræðinni við mat á félögum í ríkiseigu. Það eigi ekki bara við Landsvirkjun heldur öll ríkisfyrirtæki almennt, vítt og breytt um heiminn. Helsta breytingin sé sú að litið sé í ríkari mæli til fyrirtækjanna sjálfra án ríkisstuðnings en áður var.

„Þetta er hinn svokallaði "sub-investment grade" eða „junk“ flokkur, sem er mjög neikvætt,“ segir Stefán aðspurður um það hvort Landsvirkjun sé nú ekki kominn í hinn svokallað „rusl“ flokk á lánshæfismati.

„Þetta hefur hins vegar engin skammtímaáhrif á Landsvirkjun. Ástæðan fyrir því er helst sú að lánamarkaðir eru nánast lokaðir fyrir íslenska aðila um þessar mundir. En þegar lánsmarkaðir opnast gefur augaleið að eftir því sem lánshæfi lækkar þá minnkar aðgangur að lánsfé.“

Stefán segir að stjórn Landsvirkjunar og eigendur muni fara vandlega yfir stöðuna í framhaldinu. Landsvirkjun sé hins vegar vel fjármögnuð um þessar mundir, með tæpar 100 milljónir Bandaríkjadala í sjóði og um 300 milljónir dala í veltuláni. Það dugi vel til næstu 18 mánaða eða svo.

Hann leggur áherslu á að í sjálfu sér hafi ekkert breyst varðandi rekstur Landsvirkjunar síðasta árið.

„Landsvirkjun í dag er í raun betri en Landsvirkjun var fyrir ári síðan,“ segir Stefán.

„Hins vegar eru það fyrst og fremst ytri ástæður sem hafa áhrif á lánshæfismatið núna. Það eru breytingar á bæði erlendum mörkuðum og ekki síst hér heima.“