Eva Sóley Guðbjörnsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri Advania á Íslandi frá og með 1. júlí.  Eva tekur við starfinu af Stefáni Sigurðssyni sem lét af störfum í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Frá árinu 2014 hefur Eva Sóley gegnt starfi forstöðumanns á fjármálasviði hjá Össuri, en starfaði áður lengst af hjá Kaupþingi m.a. í fjárstýringu, fjármögnun, á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf og síðast í stöðu fjármálastjóra frá árinu 2009 til 2011. Einnig hefur hún verið varaformaður bankaráðs Landsbankans frá árinu 2013.

Eva Sóley er með B.Sc. í hagverkfræði og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia Háskólanum í Bandaríkjunum. Hún á farsælan knattspyrnuferil að baki, en Eva Sóley er Bliki og lék með íslenska landsliðinu um árabil. Hún er gift Hilmari Rafni Kristinssyni, og eiga þau tvö börn.