*

þriðjudagur, 26. október 2021
Erlent 20. september 2021 10:45

Evergrande skjálfti á mörkuðum

Öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar hafa lækkað um meira en 1% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
epa

Hlutabréfamarkaðir víðs vegar um heim hafa opnað rauðir í morgun við áhyggjur að lausafjárkrísa hjá kínverska fasteignarisanum Evergrande muni ná út fyrir fasteignageirann þar í landi.

Öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar hafa lækkað um meira en 1% í fyrstu viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan er búinn að lækka um 3% þegar fréttin er skrifuð. Evrópska Stoxx 600 vísitalan hefur lækkað um nærri 2% í morgun.

Hlutabréf Evergrande, skuldsetta fasteignafélagi heims, hafa fallið um meira en 10% í dag og 80% frá áramótum. Fjárfestar hafa nú síauknar áhyggjur af stöðu kínverska fasteignageirans sem hefur leitt til þess að Hang Seng Property vísitalan, sem vaktar hlutabréf skráðra fasteignafélaga í Hong Kong kauphöllinni, er búin að lækka um nærri 7% í dag og hefur ekki verið lægri frá árinu 2016.

Evergrande stendur frammi fyrir meira en 300 milljarða dala kröfum frá lánardrottnum og fyrirtækjum. Á morgun er eindegi á mikilvægri vaxtagreiðslu á erlendum skuldum félagsins. Evergrande sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku og varaði við gjaldþroti ef félaginu tækist ekki að safna fjármagni. Lánshæfisfyrirtækið Moody‘s hefur lækkað einkunn fyrirtækisins þrisvar frá því í júní síðastliðnum.

„Það er of snemmt að tala um smitáhrif frá Evergrande en þetta er enn eitt merkið um aukið áhættumat á kínverskum mörkuðum,“ er haft eftir yfirmanni fjárfestinga hjá bresku starfsemi JPMorgan í frétt Financial Times.

Uppi eru áhyggjur af því að slæm staða kínverskra fasteignageirans muni ná út fyrir fasteignageirann og til kínverska fjármálafyrirtækja.

„Evergrande er aðeins toppurinn á ísjakanum,“ hefur FT eftir framkvæmdastjóra hjá kínverskum miðlarafyrirtæki. Kínverskir byggingaraðilar hafi átti erfitt með afborganir á skuldabréfum útgefnum í dollurum. Hann bætir einnig við að markaðir hafi þegar orðnir áhyggjufullir um að mögulegar aðgerðir kínverskra stjórnvalda að þvinga fasteignafyrirtæki til að lækka húsnæðiskostnað. „Þetta hefur áhrif á bankana – ef fasteignaverð lækkar, hvað gerist þá við fasteignalánin þeirra? Þetta hefur keðjuverkun.“