Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag, fimmta daginn í röð en FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,5% og hefur ekki verið lægri í tvo mánuði að sögn Reuters fréttastofunnar.

Í morgun voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en seinnipart dags fóru olíu- og önnur orkufyrirtæki að lækka töluvert.

BP og Shell lækkuðu um 2% og Total lækkaði um 1,3%, Rio Tinto um 2,6% og BHP Billiton um 2,5% svo dæmi séu tekin.

Evrópskir bankar tóku við sér í dag. Þannig hækkaði UBS um 3%, Barclays um 0,9%, RBS um 0,8% og BNP Paribas um 1,3%. Þetta eru ekki háar tölur en hafa verður í huga að flest þessara fyrirtækja höfðu fyrir hádegi lækkað um rúmt prósent.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,7%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,3% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,9%.