Dow Jones Stoxx 600 vísitalan lækkaði um 0,3% og lauk í 349,69, en bréf í fyrirtækjum sem flytja út til Bandaríkjanna lækkuðu í dag, þar á meðal tæknifyrirtæki og bifreiðaframleiðendur. Bæði evran og pundið styrktust gagnvart Bandaríkjadalnum í dag.

FTSE 100 vísitalan lækkaði um 0,4% og lauk í 6.025,90, fjármálafyrirtæki lækkuðu í kauphöllinni í dag, þar á meðal Barclays, sem lækkaði um 1,7% eftir að fyrirtækið staðfesti að stefndi í að ársafkoma fyrirtækisins væri í samræmi við væntingar greiningaraðila. Old Mutual lækkaði um 5,8% í kjölfar birtingar uppgjörs sem var undir væntingum. EMI hækkaði um 10%, en fyrirtækið staðfesti að fjárfestingarsjóðir hefðu lýst áhuga á að gera yfirtökuboð í fyrirtækið. Scottish Power lækkaði um 0,8%, eftir að hafa samþykkt yfirtökuboð spænska orkufyrirtækisins Iberdrola.

DAX Xetra 30 vísitalan lækkaði um 0,3% og lauk í 6.281,68. DaimlerChrysler lækkaði um 0,7% og Infineon lækkaði um 0,9%. Air Berlin lækkaði um 13,7%, en flugfélagið tilkynnti að til stæði að panta 60 737-800 þotur frá Boeing og velta markaðsaðilar því nú fyrir sér hvernig eigi að fjármagna kaupin.

CAC-40 vísitalan lækkaði um 0,1% og lauk í 5.306,24.

OMXN40 lækkaði um 0,6% og lauk í 1133,22. Nokia lækkaði um 1,4%.

OBX lækkaði um 1,3% og lauk í 338,40.