Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag þó betur færi en á horfði en fram eftir degi höfðu flestar hlutabréfavísitölur lækkað um 3 – 4%.

Að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins og eins og áður hefur komið fram í dag hefur gjaldþrot bandaríska fjárfestingabankans Lehman brothers valdið miklum óróa á fjármálamörkuðum í dag.

Þannig lækkuðu bankar á borð við UBS, Royal Bank of Scotland, Societe Generale, Deutsche Bank og Barclays á bilinu 7% - 15%.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 3,7% en hafði um tíma í dag lækkað um 4,8%. Þá hefur vísitalan ekki verið lægri frá því um miðjan júlí að sögn Reuters.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,7%.

Í París og í Sviss lækkuðu CAC 40 og SMI vísitölurnar um 3,8%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,6%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 4,8% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,9%.