Lítil hreyfing var á hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag en FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði engu að síður um 0,2%.

Frekar rólegt var á mörkuðum en lokað var í Bretlandi vegna frídags þar í landi. Þá voru markaðir einnig lokaðir í Bandaríkjunum vegna frídags vestanhafs.

„Þetta var mjög, mjög rólegur dagur. Ekkert spennandi að gerast,“ hefur Reuters fréttastofan eftir verðbréfasala í Frankfurt en þar á bæ hækkaði DAX vísitalan þó um 0,1%.

Í Amsterdam og í París stóðu AEX og CAC 40 vísitölurnar í stað.

Í Zurich í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,3%  og var svissneski bankinn UBS þar í fararbroddi sem lækkaði um 3,8% eftir að orðrómur komst í gang um að bankinn þurfi á næstunni að afskrifa enn meira fjármagn en þegar hefur verið gert.

Í Kaupmannahöfn lækkað OMXC vísitalan um 0,4% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,9%.